Nú standa yfir orkuskipti hjá Móður Jörð í Vallanesi. Á undanförnum áratugum höfum við plantað meira en 1 milljón trjáa og komið er að því að nýta skóginn til orkuframleiðslu. Keyptur hefur verið brennari fyrir viðarperlur sem notaður verður til að þurrka bygg, repju og hveiti sem ræktað er á ökrum okkar. Þetta dregur enn úr kolefnisspori við framleiðsluna og eflir enn frekar hringrásarhugsun sem er okkur hugleikin í lífrænni ræktun og framleiðslu.
Viðarperlur eru samþjappað form af skógarafurðum og sérstakir brennarar nýta þær til að framleiða varma. Þessi tækni er vel þekkt og útbreidd víða í Evrópu. Bruninn er mjög hreinn, alþjóðlegir staðlar ná yfir búnaðinn og hliðarafurðin, askan, er jarðvegsbætir fyrir okkur sem eru í lífrænni ræktun því hann hjálpar okkur að binda enn meira kolefni í jarðvegi. Framleiðsla viðarperlanna fer fram hjá Tandrabretti á Reyðarfirði, sem jafnframt hirðir við úr skógum Austurlands s.s. í Vallanesi til framleiðslunnar og veitir þeim inní þetta hringrásarkerfi.
Það sem gerir okkur kleift að taka slík skref er stuðningur opinberra sjóða s.s. Framleiðnisjóðs, sem hefur kostað búnaðinn sem við munum nota til að þurrka kornið. Einnig hlaut Móðir Jörð nýverið styrk frá Orkusjóði sem mun gera okkur kleift að nota sömu tækni til húshitunar í Vallanesi, og ýmissa annarrar nýtingar á staðnum s.s. til upphitunar í gróðurhúsum.
Fyrir okkur er þetta mikilvægt skref til að taka þátt í orkuskiptum í samfélaginu. Það blasir við að nýta þá auðlind sem felst í 1 milljón trjáa sem plantað hefur verið í Vallanesi undanfarin 30 ár en þeir veita m.a. ræktuninni skjól og hafa haft margvíslegt gildi fyrir umhverfið. Þessa skóga þarf að grisja til að viðhalda vexti þeirra en það er sér í lagi grisjunarviður sem nýttur er sem orkugjafi.