Það er tilefni til að gleðjast yfir þeim árangri sem náðst hefur í orkurskiptum hjá Móður Jörð, en frá og með þessu hausti er allt korn af ökrunum í Vallanesi þurrkað með viðarorku. Þarna höfum við skipt út jarðefnaeldnseyti fyrir orkugjafa sem er kolefnishlutlaus. Með þessu sparast útblásur gróðurhúsalofttegunda sem bætir kolefnisspor kornafurða okkar enn frekar. 

Viðarorka er þekkt m.a. til húshitunar á meginlandi Evrópu þar sem viður, t.d. grisjunarviður úr skógum, er kurlaður eða unninn í svokallaðar viðarperlur sem síðan er brennt í sérstökum ofnum. Við notum þessa tækni en við brennsluna verður til varmi sem við notum til að blása í gegnum kornið og þurrka það. 

Ræktunin í Vallanesi leggur mikið til loftslagsmála í formi bindingar kolefnis en áætlað er að skógurinn og 9 km löng skjólbeltin bindi um 1.000 tonn af CO2 á ári.  Grisjun er forsenda áframhaldandi vaxtar skógarins og því má segja að orkuöflun með viðarorku stuðli að bættu loftslagi.  Lífræn ræktun stuðlar auk þess að meiri bindingu í jarðvegi þar sem einungis er notaður lífrænn áburður, engin eiturefni  og þannig eflist jarðvegslífið til lengri tíma.

Við erum afskaplega stolt af þessum árangri og að taka þátt í að nýta þennan nýja orkugjafa á Íslandi sem getur opnað ýmis tækifæri á köldum svæðum þar sem ekki er jarðhiti. 

Orkuskipti í Vallanesi eru styrkt af Orkusjóði og færum við þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn.