Móðir Jörð hefur nú hlotið lífræna vottun á ylrækt í gróðurhúsum, m.a. á tómata. Tómatarnir eru svokallaðir ættjarðar tómatar (heirloom tomatos) sem gefa mikið bragð og er um fjölbreytta ræktun  ræða.  Einnig er um að ræða kúrbít og baunir en húsin lengja auk þess ræktunartímabilið fyrir fleiri tegundir vor og haust.

Köldum gróðurhúsum í Vallanesi hefur verið  breytt til að þar sé hægt að rækta í upphituðum húsunum og er þar stuðst við heitt vatn sem hitað er með viðarorku.  Vallanes er á köldu svæði sem ekki nýtur jarðhita  en viðarorka, þar sem vatn er hitað með því að brenna viðarperlur eða –kurl, opnar fyrir hvers kyns húshitun með þessum orkurgjafa.  Í Vallanesi hefur verið plantað 1 milljón trjáa og við grisjun skóganna fellur til orkuviður.

Í lífrænni ræktun eru plöntur ræktaðar í mold eða moldarbeði, í jarðvegi, sem einungis hefur fengið lífrænan áburð.  Rannsóknir hafa sýnt fram á að matvæli sem ræktuð eru í lífrænni ræktun skila að jafnaði 25% meira af andoxunarefnum, næringarefnum og steinefnum en annars.  Neytendur upplifa auk þess meiri bragðgæði og lífrænt vottaðar afurðir nýtast oft betur því hlutfall þurrefnis er hærra. (Áhugasömum er bent á meðfylgjandi grein á Lífrænt Ísland sem fjallar um fjölþjóðlegar rannsóknir á gæðum lífrænt vottaðra matvæla: https://lifraentisland.is/2021/02/15/hvers-vegna-lifraent-rannsoknir-a-graenmeti-og-avoxtum/

Húsin eru opin á Lífræna daginn og hvetjum við gesti til að skoða ræktunina.