Í dag hefst áhugaverð tilraun til frekari orkuframleiðslu í Vallanesi en nú hafa verið settar upp sólarsellur á Kyndistöðinni til að framleiða rafmagn. Fyrirtækið ALOR hefur í samstarfi við Bændasamtök Íslands valið nokkur býli til að prófa slíka tækni við íslenskar aðstæður í ólíkum tegundum búskapar, m.a. í garðyrkju. Sérstakar birtusellur hafa verið settar upp hjá okkur og tengdar og framleiða frá og með deginum í dag rafmagn úr birtu/sólarorku á þaki Kyndistöðvarinnar okkar. Settar voru upp 28 sellur sem fara langt með að framleiða það rafmagn sem býlið notar núna yfir bjartasta og hlýjasta tíma ársins. Áður hefur verið sett upp viðarkynding og munu þessi tvö form kyndingar vinna saman við framleiðslu á heitu vatni sem yljar mannfólki og plöntum í Vallanesi.
Þetta er í fyrsta skipti sem slíkar sólarsellur eru settar upp á garðyrkjubýli á Íslandi, en býlið nýtir rafmagn til að kæla grænmeti, auk þess við ýmsa vinnslu afurða og alla almenna starfsemi s.s. í ferðaþjónustu. Við erum spennt fyrir framhaldinu enda getur landbúnaður lagt mikið til í orkuframleiðslu.
Móðir Jörð þakkar ALOR fyrir góða vinnu undanfarna daga og við hlökkum til að fylgjast með framleiðslunni með þessum nýja orkugjafa.
Mynd: frá vinstri, Eymundur Magnússon eigandi Móður Jarðar í Vallanesi, Valgeir Þorvaldsson stjórnarformaður ALOR, Aðalsteinn, Guðmundur og Zoran frá Tengill ehf rafverktakar.