LÍFRÆN RÆKTUN

Í lífrænni ræktun nýta menn náttúrulega ferla og hringrás næringarefna við ræktun afurða. Næringarefnum úr nærumhverfi er safnað saman og látin brotna niður í safnhaug áður en þau eru notuð til áburðar. Einungis notast við lífrænan áburð í stað innflutts tilbúins áburð.

Ekki eru notuð eiturefni til varnar illgresi og skordýrum heldur lífrænar varnir og varnarefni sem eiga sér náttúrlegan uppruna.   Sveppavarnarefni eru ekki heimiluð í lífrænni kornrækt.  Skiptiræktun er höfð að leiðarljósi við lífræna ræktun, landið er hvílt á milli uppskera í ákveðinn tíma m.v. um hvaða tegund er að ræða.  Þetta viðheldur frjósemi og dregur úr líkum á plöntusjúkdómum.

Vallanes býlið er þekkt fyrir skógrækt, og hefur einni milljón trjáa verið plantað á jörðinni m.a. í þeim tilgangi að veita ræktuninni skjól.  Trén hjálpa auk þess til við að efla lífríkið og búa til jarðveg.  Fallin lauf og plöntuleyfar er hin besta máltíð fyrir smádýr og örverur sem lifa í jarðveginum.  Með slíkri viðbót byggist jarðvegurinn upp með lífrænu efni sem brotnar niður og myndar jarðveg og jarðvegslíf sem er grundvöllur ræktunar og gerir staðinn ákjósanlegri til búsetu auk þess að auðga fuglalíf.

Vallanes er eitt fyrsta býlið á Íslandi sem sóttist eftir vottun fyrir lífræna ræktun og hefur starfað í vottunarkerfi sleituslaust síðan 1995.  Um lífræna ræktun gilda strangar reglur en í stuttu máli má segja að markmiðin séu í stuttu máli eftirfarandi:

*Lífrænar afurðir skal framleiða í sátt við umhverfið.
*Lífrænar matjurtir skulu framleiddar án eiturefna og tilbúins áburðar.

*Lífrænar aðferðir draga úr hættu á ýmiss konar mengun í matvælum.
*Í lífrænni ræktun eru ekki notaðar aðferðir og efni sem eru náttúrunni framandi, s.s. erfðabreytingar.
*Lífrænar búfjárafurðir eru framleiddar með velferð búfjár að leiðarljósi, með náttúrulegum fóðurefnum og án hormóna.
*Erfðabreytt efni eru bönnuð í lífrænni framleiðslu.

* Aðföng þurfa almennt að standast kröfur um sjálfbærni

 

Í lífrænt vottuðum vörum eru markmið umfram aðra matvælaframleiðslu:

* Innihalda lífrænt ræktað hráefni

*Í lífrænum vörum eiga að fara saman öryggi, hreinleiki, mikil bragðgæði og fjölþætt næringarsamsetning.
* Aukaefni verða að vera af náttúrulegum uppruna, ekki er notast við gervi litar- og bragðefni

* Við vinnslu og meðferð er lífrænum vörum haldið aðgreindum frá öðrum vörum og notkun íblöndunarefna er haldið innan strangra marka.
* Vörur og afurðir sem eru seldar sem lífrænar vörur eiga að vera vottaðar af óháðum aðila sem gengur úr skugga um að framleitt sé samkvæmt alþjóðlegum reglum.

 

Með því að kaupa lífrænar vörur hvetur þú til skynsamlegrar landnýtingar og gróðurverndar.

Vottunarstofan Tún setur reglur og vottar framleiðendur á Íslandi og er þeirra reglur að finna hér: www.tun.is

Lífrænt Ísland er miðja lífrænnar framleiðslu á Ísland – sjá nánar á www.lifraentisland.is

Móðir Jörð í Vallanesi er meðlimur í Verndun og ræktun – VOR, félag framleiðenda í  lífrænum búskap, sjá Facebooksíðu félagsins.

Sjá upplýsingar frá Samtök lífrænna landbúnaðarhreyfinga, IFOAM, www.ifoam.bio

IS