Verðlaun við Matarvísindaháskólann í Pollenzo

Nýverið var Eymundi Magnússyni, bónda í Vallanesi, veitt viðurkenning við Matarvísindaháskólann í Pollenzo á Ítalíu (University of Gastronomic Sciences – UNIGS).  Viðurkenninguna hlýtur Eymundur fyrir það framtak að hafa plantað skógi og skjólbeltum og þannig skapað skilyrði til lífrænnar ræktunar í sínu heimalandi. Eymundur er einn af þremur einstaklingum sem fær þessa viðurkenningu í ár fyrir að hafa með vinnu sinni stuðlað að aukinni sjálfbærni í landbúnaði, verndun umhverfis og líffræðilegri fjölbreytni.

Háskóli matarvísinda í Pollenzo var stofnaður árið 2004 af frumkvæði Carlo Petrini, forseta Slow Food samtakanna.  Hann er stjórnarformaður skólans og afhenti verðlaunin ásamt Bruno Cerretto, eiganda Cerretto víngerðarinnar í Alba.  Verðlaunin sem heita “Premio Langhe Cerretto” er samstarfsverkefni Háskólans í Pollenzo og Cerretto víngerðarinnar sem hafa undanfarin 10 ár tekið höndum saman og veitt verðlaun til rithöfunda sem skrifuðu um matarmenningu.  Nú er sjónum hins vegar beint að einstaklingum í landbúnaði sem talið er að hafi með vinnu sinni aukið sjálfbærni á því sviði og séu öðrum mikilvægar fyrirmyndir.

Auk Eymundar hlutu verðlaun Nicola del Vecchio sem er ungur bóndi í Molise á Ítalíu, fyrir að endurvekja ræktun á sínu svæði og fyrir þátttöku í að efla staðbundna matvælaframleiðslu, og Sómalinn Mohamid Abdikadir fyrir að stofna fjölda matjurtagarða í heimalandi sínu og auka þar aðgengi fólks að mat.

Blásið var til 2ja daga viðburðar 22 – 23. júní sem bar yfirskriftina “Bylting matjurtagarðsins”.  Efnt var til hringborðsumræðu um mikilvægi þess að auka aðgengi almennings að matjurtaræktun og auka þátttöku fólks í framleiðslu matvælanna sem það neytir.  Alice Waters hlaut auk þess heiðurs doktors nafnbót við háskólann en hún hefur unnið ötullega að stofnun matjurtagarða víðs vegar um Bandaríkin, talað fyrir hollu mataræði barna og unglinga þar í landi.  Hún á og rekur veitingastaðinn Chez Panisse í Berkeley og hefur gefið út fjölda bóka.

Leave A Reply