Ystingur

1 bolli (bankabygg frá Móður jörð)

2 l nýmjólk

1 l súrmjólk

Væn handfylli af fjallagrösum

Salt og pipar eftir smekk þegar ysringurinn er bragðsettur

 

Bankabyggið er lagt í bleyti yfir nótt.

Fjallagrösin eru þvegin og hreinsuð af öllum aðskotahlutum.

Bankabyggið og fjallagrösin eru soðin í nýmjólkinni. Þegar suðan er komin vel upp er súrmjólkinni lætt niður á botn í pottinum með eysli (ausu) og látin sjóða upp í mjólkina. Ekki er hrært í pottinum meðan mjólkin sýður. Þannig verða ostarnir stórir og fínir (ystingur).

 

Fyrir daga mjólkurbúa og súrmjólkur var notuð skyrsýra/slátursýra í ysting og þá skipti miklu máli að lauma sýrunni niður á botn í pottinu undir sjóðandi nýmjólkina með fjallagrösunum og Bankabygginu til þess að sýran ysti mjólkina þegar hún sauð upp. Nú gerir súrmjólkin sama gagn og einfaldar eldamennskuna.

 

Gott er að borða ystinginn með rjómablandi út á og súru slátri eða nýrri lifrarpylsu.

 

Ískaldur ystingur með þeyttum rjóma er einstakur eftirréttur.

 

Uppskrift Þóru Sigurðardóttur á Arnarvatni í Mývatnssveit.

- Back to products