Bankabyggsbrauð

2,5 dl soðið bankabygg (íslenskt frá Móður Jörð), soðið í 7 dl af vatni

Suðunni hleypt upp. Þá er hitinn lækkaður og látið malla við lægsta hita þar til grjónin eru orðin mjúk og hafa drukkið í sig vatnið. Tekur u.þ.b. 45 mínútur. Síðan kælt í bökunarskálinni í svo sem hálftíma.

2,5 dl grófmalað spelt‐heilhveiti
2,5 dl steinmalað rúgmjöl (eða annar eins skammtur af spelthveitinu, eða jafnvel fínmöluðu byggmjöli)
1 dl sólblómafrækjarnar
1 dl hörfræ
1 dl sesamfræ
3 tsk lyftiduft (helst vínsteins vegna hollustunnar!)
1 tsk kardimommuduft
1 msk kúmenfræ (einnig má nota hvannafræ, spánarkerfilsfræ, skessujurtarfræ eða fennilfræ í staðinn)

Annað krydd [frjálst val – má sleppa, séu menn meinlátir við sig!] eitthvað af þessu: 1 dl þurrkuð gojiber, þurrkuð bláber, rúsínur eða saxaðar döðlur. Einnig koma þurrkuð reyniber (ramt!) eða söxuð epli (sætt!) til greina. Sömuleiðis þurrkaðar jurtir (birkilauf, hvönn, timían o.þ.h.), fjallagrös (sætramt!) og söl (sætsalt!). Í jólaútgáfuna er sjálfsagt að hafa söxuð epli með kanil og muldum heslihnetum!

5 dl AB‐mjólk (sé þetta ekki nægur raki má sletta nokkrum msk. af heitu vatni í deigið til að bæta úr því!).
Ögn af salti – ef vill.

Þannig er farið að:

Þurrefnunum blandað vel saman við rök bygggrjónin. Síðan er bleytt vel í öllu með AB‐mjólkinni. Sett í 30cm langt „jólakökuform“ sem búið er að fóðra með bökunarpappír. Sléttað vel í formið og ef vill má strá nokkrum saltkornum ofaná með fingrunum. Bakað við 200°C í 45 til 60 mínútur. Hvolft úr forminu, bökunarpappír fjarlægður. Vafið inn í þvalt viskustykki og látið kólna. Síðan sett í plastpoka inn í kæliskáp. Brauðið er fremur rakt og það borgar sig að halda viskustykkinu utan um brauðið fyrstu nóttina, síðan er það sett í nýjan, þurran plastpoka. Skerst betur og fær betri „konsístens“ eftir eina nótt í kæli. Skorið frekar þykkt (6‐7mm) og borðað með smjöri, hummus eða osti. Geymist í kæli.

Passar með öllu. Mjög hollt, trefjaríkt og saðsamt.

Uppskrift fengin frá Hafsteini Hafl.

- Back to products