Þorskur m/byggottó

Þorskur með byggottó, pestói og Vallanes-salati – uppskrift frá Yesmine Olsson

600 gr þorskur
Fiskinum velt upp úr hveiti á báðum hliðum og svo steiktur í svolítilli olíu. Svo bætirðu við cumin-vinaigrette og lætur olíu og krydd ganga inn í fiskinn,
snýrð og gerir eins hinum megin. Saltaðu og pipraðu. Best finnst mér að elda fiskinn ekki of lengi, bara þannig að hann sé gegneldaður og láta hann svo standa í nokkrar mínútur áður en hann er borinn fram. 

Byggottóið hennar Óskar
2 dl bygg
6 dl vatn
1 tsk salt
Sjóddu saman þar til byggið hefur dregið í sig allt vatnið, í u.þ.b. 40 mín.

1 laukur
1 gulrót
1/2 paprika
Blaðlaukur
3 hvítlauksgeirar
6 meðalstórir sveppir
1/2 kúrbítur
rósmarín, ferskt eða þurrkað
timjan, ferskt eða þurrkað
salt og pipar

Skerðu allt grænmetið í litla teninga, steiktu á pönnu upp úr olíu eða smjöri (mun betra en ekki eins hollt).  Bættu við kryddum og hvítlauk þar til grænmetið er farið að mýkjast og kryddin farin að opnast. Bættu bygginu saman við og steiktu í ca 2 mínútur, bættu við olíu/smjöri eftir þörfum. Saltaðu og pipraðu eftir smekk.

Taktu af hitanum og bættu við 1 dl rjóma og 50 gr af rifnum parmesan-osti. Hrærðu saman og láttu blönduna standa í nokkrar mínútúr áður en hún er borin fram. Ef vilji er til að gera byggið enn kremaðra má setja meiri rjóma eða meiri parmesan eftir smekk eða eftir því hvert meðlætið er.

Þessi uppskrift er á engan hátt heilög. Í raun má nota byggið líkt og pasta, þ.e.,  sem grunn að því sem smekkur manns kallar á,  eða það sem er til í ísskápnum hverju sinni. Rjómanum má t.d. skipta út fyrir tómatmauk til að minnka óhollustu. Hægt er að nota basilíku, steinselju eða önnur krydd og svo auðvitað nánast hvaða grænmeti sem er.  Mikilvægast er að sjóða byggið fyrst og steikja þau hráefni sem blanda á saman við sér, og blanda svo saman í lokin.

Pestó
Hráefni:
30 gr fersk basilíka 
50 gr ferskt spínat
4 hvítlauksgeirar
2/3 dl  rifinn parmesan-ostur
1 dl ólífuolía
2/3 dl furuhnetur
1 tsk hunang

Blandaðu saman basilíku, spínati, hvítlauksgeirum, parmesan, ólífuolíu og furuhnetum í blandara svo úr verði slétt mauk. Bættu hunangi við ef vill. Settu svo bygg á disk, smávegis salat og þorskinn ofan á, pestó  og þurrkuð trönuber til skrauts.

- Back to products