Ágrip

Vallanes á sér langa sögu en heimildir um búsetu þar ná aftur til 12 aldar.  Staðurinn er kirkjustaður og sátu þar skáldprestar sem jafnframt voru bændur allt til 1979.  Þá urðu kaflaskil í Vallanesi er prestur flutti burt en að Vallanesi fluttist ungur bóndi, Eymundur Magnússon, með fjölskyldu sína og hóf búskap.  Hann byrjaði nær frá grunni með nýrækt og uppbyggingu húsakosts  því ekki hafði verið bóndi í Vallanesi 20 ár þar á undan.

Eymundur er búfræðingur að mennt en starfaði erlendis eftir nám hvar hann viðaði að sér ýmsum hugmyndum og heillaðist m.a.  af skógrækt.  Hann byrjaði fljótlega að móta ræktunarlandið með notkun skjólbelta sem í dag er eitt af höfuð einkennum staðarins.  Í Vallanesi er lögð áhersla á vistrækt (acroecology) til að skapa skilyrði fyrir ræktun korns, grænmetis og ávaxtatrjáa sem og blómlegt mannlíf.

Kornrækt hófst í Vallanesi árið 1985 og Eymundur skipti alfarið yfir í lífræna ræktun og grænmetisræktun um árið 1990. Fljótlega hófst fullvinnsla afurða með tilkomu nuddolía og þróun rétta s.s. eins og grænmetisbuff og vörumerkið Móðir Jörð varð til.

Árið 2010 gekk Eygló Björk Ólafsdóttir, kona Eymundar, til liðs við Móður Jörð.  Saman hafa þau hjónin lagt aukna áherslu á nýsköpun í lífrænni ræktun og aukna fullvinnslu tilbúinna vara undir vörumerki Móður Jarðar.

 

- Go back