Við kynnum til leiks nýju te-línuna okkar en Móðir Jörð í Vallanesi hefur boðið upp á te úr eigin ræktun á kaffihúsi staðarins í Asparhúsinu auk þess sem það hefur fengist á te-bar VÖK baths. Þessar blöndur hafa fallið í góðan jarðveg og er nú að finna í þessari nýju vörulínu Móður Jarðar. Jurtunum er pakkað í lausu, en í pakkanum er einnig að finna 2 margnota te grisjur úr bómull. Við notum birki, brenninetlu, myntu, sítrónumelissu, morgunfrú og fleiri jurtir ýmist einar og sér eða blandaðar, en í byrjun er um 4 gerðir af te að ræða. Jurtirnar eru ýmist villtar eða ræktaðar við bestu skilyrði og uppskornar á þeim tíma sem virkni þeirra er hvað mest. Línan er vottuð af Vottunarstofunni Túni og ber Evrópulaufið því til staðfestingar.
Segja má að vörulínan sé afrakstur stækkunar á framleiðslurými Móður Jarðar sem var byggt og undirbúið sérstaklega fyrir frekari þurrvinnslu s.s. á jurtum. Þessi framkvæmd tengist uppbyggingu á húsakosti í Vallanesi sem staðið hefur ónotaður til margra ára, en fær nú nýtt hlutverk og stækkar athafnasvæði okkar til vöruþróunar og frekari fullvinnslu.