Jarðeplahátíð var haldin hjá Móður Jörð í Vallanesi við góðan orðstír í byrjun október. Undanfarið hefur Móðir Jörð unnið að því að auka tegundafjölbreytni í kartöflum enda hafa kartöflur skipað mikilvægan sess í ræktun staðarins allt frá árinu 1752, eða hvað ? Hátíðinni var einmitt ætlað að kanna forsendur þess betur, skoða ræktunarsögu í Vallanesi og víðar á Austurlandi og fjalla um kartöflur í víðum skilningi enda mikilvægt hráefni í íslenskri matargerð. Hátíðin var haldin í samstarfi við Matarauð Austurlands, Gunnarsstofnun og veitinghúsið Nielsen á Egilsstöðum. Útkoman var fróðleg og lífleg sögustund Skúla Björns Gunnarssonar á Skriðuklaustri blandað við glæsilega matargerðarlist en Kári Þorsteinsson, matreiðslumeistari á Nielsen, fékk það hlutverk að töfra fram rétti úr ólíkum tegundum af kartöflum sem spönnuðu heila máltíð, allt frá lystauka til eftirréttar. Kóngabláar, Blálandsdrottning, hvítar og rauðar möndlur munu bætast við í flóru Móður Jarðar þegar fram í sækir, en eftir sem áður verða Rauðar íslenskar og Gullauga fastir liðir í flórunni. Þær eru ávallt fáanlegar í þessum verslunum; Brauðhúsið í Grímsbæ, Frú Laugu, Gott og Blessað, Melabúðin og Fjarðarkaup, auk netverslunar Móður Jarðar. Allar kartöflur ársins 2020 voru ræktaðar á Pálshúshóli, sama stað og upphaf grænmetisrætkunar í Vallanesi er talið vera í kringum árið 1752.
5. október, 2020