Gestir sem heimsækja Vallanes um þessar mundir hafa tekið eftir því að framkvæmdir standa yfir á býlinu. Byggingaframkvæmdir fela í sér að bætt verður við gistirými á staðnum en Móðir Jörð hefur hingað til haft tvö hús til útleigu, Lísuhús og Mjólkurhúsið.  Auk þess er grænmetisveitingastaður rekinn í Asparhúsinu.

Uppbygging á gamla fjósinu hófst af krafti fyrir nokkrum árum þar sem byrjað var að breyta kjallara þess í nýja kæligeymslu fyrir grænmeti og nýjum frysti.  Þessi framkvæmd eykur til muna geymslugetu fyrir ferskt grænmeti,  nýtingu og geymslu hráefnis til vinnslu.   Við hið gamla hús var reist viðbygging fyrir vinnslu á jurtum og olíum en á býlinu er ræktuð repja sem unnin er til manneldis fyrir vörulínu Móður Jarðar sem og í snyrtivörur.

Nú er komið að seinni hluta þessarar framkvæmdar og í vor var hafist handa við að byggja upp efri hluta hússins.  Á grunni hins gamla fjóss rís nú gistirými með þremur litlum svítum og  tveggja manna herbergi með baði auk þvottahúss fyrir starfsemina.  Með þessari framkvæmd fær hin gamla bygging hlutverk á ný.

SAGAN OG ENDURVINNSLAN

Fyrstu 10 árin stundaði Eymundur Magnússon kúabúskap í Vallanesi en frá því að hann lagðist af hefur búskapurinn snúist um akuryrkju; ræktun korns og grænmetis.  Fjósið var byggt á sjötta áratugnum úr steypu, útveggirnir eru nær 40 cm þykkir úr dönsku eðalsementi sem áfram fær að  gegna hlutverki sínu. Þegar Eymundur hóf búskap í Vallanesi 1979 byggði hann mjólkurhús við fjósið til að geta nýtt það. 1993 er Hvítahúsið, framleiðslustöðin okkar byggð við austur gafl fjóssins.  Aftur hófust framkvæmdir við gamla fjósið fyrir árið 2020 eins og lýst er hér ofar og eru áætluð verklok vorið 2024.

Við höfum haft það að markmiði að endurvinna sem mest af þeim efniviði sem til féll t.d. úr gamla þaki hússins.  Torfið sem notað var í einangrun verður nýtt til ræktunar í gróðurhúsum Móður Jarðar.  Í þaksperrum hlöðunnar var úrvals timbur sem nú fær  framhaldslíf í gróðurkössum til ýmissa nota.  Gróðurplastið úr hlöðu hússins hefur að hluta til verið nýtt í skýli fyrir vélakost og ýmsum öðrum efnivið haldið til haga til síðari tíma, eins og gengur og gerist í sveitinni.

FRAMTÍÐIN . 

Þessi framkvæmd eykur möguleika til upplifunar í Vallanesi og tilefni fyrir gesti til að dvelja lengur á Austurlandi, njóta útivistar og góðs matar í Vallanesi.  Frá Vallanesi eru náttúruperlur Austurlands innan seilingar og stutt í allar áttir.  Útleiga  hefst vorið 2024 og er stefnt að því að fyrstu gestir leggist á koddann í maí 2024.