Nú eru 25 ár frá því að ræktunin í Vallanesi hlaut opinbera vottun fyrir lífræna ræktun skv evrópskum reglum. Á þeim tíma, árið 1995, lögðu nokkrir bændur grunn að vottunarkerfi sem síðan var innleitt í íslenska löggjöf árið 1997. Eymundur í Vallanesi var einn þeirra, en fyrstu tvö árin hlaut starfsemin vottun frá Soil Association í Bretlandi en undir eftirliti frá Vottunarstofunni Tún. Í dag hafa þau hjónin Eymundur og Eygló allt ræktarland í vottaðri lífrænni ræktun, auk vinnslu. Vörur og afurðir Móður Jarðar bera vottunarmerkið Evrópulaufið því til staðfestingar. Móðir Jörð fagnar þessum áfanga með nýrri heimasíðu og vefverslun í þeim tilgangi að færa lífrænt vottaðar afurðir nær almenningi og auka þekkingu á framleiðsluaðferðum þar að baki.